Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Krían er komin á Reykhóla

KríaÉg var hálfhissa að sjá kríur í dag. Þær voru tvær saman á hægu flögri skammt vestur af sundlauginni. Aðeins eru tveir dagar síðan fréttist af fyrstu kríum ársins austur í Hornafirði. Bein loftlína yfir jökla og miðhálendi er um 350 km. Kannski ekki mikið þegar krían er annars vegar, langfleygasti fugl í heimi; e.t.v. einn hundraðasti af árlegu ferðalagi hennar.

     

Hér í kringum Reykhóla er einna fjölbreyttast fuglalíf hérlendis, ef ekki allra fjölbreyttast. Því veldur margbreytileikinn í náttúrufarinu; allir finna sitt kjörlendi: Klettabelti efst í fjallinu, víðáttumikið mólendi, mýradrög með klapparholtum á milli, tjarnir og stöðuvötn, sjávarlón, mikið útfiri, óteljandi sker og hólmar.

      

Reyndar hef ég ekki séð haferni í allan vetur. Í sumar sá ég þá nánast á hverjum degi ef ég nennti að lyfta hausnum. Aftur á móti eru rjúpur hér í garðinum við húsið upp á hvern dag, jafnvel tíu-tólf í einu, og skógarþrestir koma og fara í hópum.

       

Í dag sá ég fimm álftir saman á flugi; undanfarið hef ég annars bara séð tvær og tvær. Um daginn horfði ég á tvær álftir fljúga virðulega í norðvesturátt og tvo hrafna flaksandi á eftir. Það var eins og svart og hvítt, ef svo má segja.

       

Grágæsir eru á túnum og í gærkvöldi sá ég tvo stokkandarblika saman á vappi. Kannski eru þeir að bíða eftir fréttum af prestastefnunni.

       

Hrossagauka sá í dag í fyrsta sinn á þessu ári. Þeir voru tveir saman og tóku dýfur. Ég er farinn að tapa heyrn, sem betur fer, og heyrði ekki hneggið. Þeir voru í vesturátt ekki langt frá mér.

     

Við Langavatn hér fyrir neðan Reykhóla er fuglaskoðunarskýli. Það er ekki til þess að skýla mannfólkinu fyrir veðri og vindum heldur til þess að fuglanir fælist ekki mannfólkið. Eins konar öfugur dýragarður - fólkið er inni í búrinu og skoðar náttúruna sem er frjáls allt í kring. Minnir svolítið á Slunkaríki á Ísafirði, hið fræga hús Sólons Guðmundssonar, sem var úthverft.

       

Krían já, sem flýgur fugla lengst. Og getur líka hamast við að fljúga og verið nákvæmlega á sama punktinum í loftinu á meðan.

       

Ég vona að minn gamli vinur séra Sigurður Ægisson fuglaskoðunarmaður og fuglarithöfundur komi í heimsókn í sumar. Hann gæti þá e.t.v. gefið saman stokkandarblikana, ef þannig skyldi æxlast.

 

Skólavistin í MR skildi eftir sig ör

Árlegur gangaslagur í Menntaskólanum í Reykjavík var stórslysalaus að þessu sinni, segir á mbl.is. Reyndar kemur fram í fréttinni að enginn hafi slasast, þannig að öllu stórslysaminna gerist það varla. Aftur á móti skrámaðist einn maður á höfði en það var eftir að slagnum lauk. Líklega enn ein staðfesting þess, að friðurinn getur verið hættulegri en stríðið.

 

Fyrir liðlega fjórum áratugum var ég meðal farþega í árlegri hópferð frá MR upp á Slysavarðstofu að gangaslag loknum. Ekki hafði ég mig í frammi í áflogunum heldur var ég einfaldlega þarna í hópi nemenda sjötta bekkjar. Hvað sem því líður, þá var ég tekinn og dreginn öfugur út um bakdyrnar á skólanum, líkt og margir fleiri. Nagli var notaður sem splitti til að halda húninum á sínum stað og kræktist litli fingur hægri handar í naglann og rifnaði út úr.

 

Ekki man ég hversu margir voru fluttir á Slysavarðstofuna að þessu sinni. Hitt man ég, að stéttin bak við skólann var eins og þar hefði verið slátrað svíni og látið blæða út. Einar Magg mætti áður en langt um leið með skúringagræjur og þreif blóðvöllinn. Fingurinn á mér var saumaður saman á Slysavarðstofunni.

 

Enn í dag má sjá örið á fingrinum; vitnisburð um veru mína í Menntaskólanum í Reykjavík.

 
mbl.is Gangaslagur MR stórslysalaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristin kenning og handhafar hennar

Ég sá það hjá guðfræðingi hér á Moggabloggi, að hugmyndir rúmlega fjörutíu íslenskra presta gangi gegn kristinni kenningu.

                                

Spurningin er þessi: Hver er með hinn eina sannleik í sínum höndum? Er það Jón Valur Jensson guðfræðingur? Eða biskupinn? Eða páfinn?

                        

Eða kannski Jesú Kristur?

 

Eða þá:

                                                 

Er yfirleitt einhver með hinn eina og endanlega sannleik í sínum höndum?

                                    

A.m.k. ekki ég. Enda ekki guðfræðingur.

                                             

P.s.: Mér skilst að téður guðfræðingur sé ekki vígður maður. Er hann þá í óvígðri sambúð við guðdóminn?


Ævisaga mín

Ég var að gramsa í drasli, þar á meðal misgömlu ljóðaveseni. Ljóðin mín eldast illa eins og ég sjálfur. Ætti ég að bera á þau hrukkukrem?

                                    

                                

                       

Ævisaga mín 

                           

Einu sinni var lítill drengur.

                       

Svo leið og beið og ekkert gerðist.

                        

Allt í einu leit hann á klukkuna.

                  

En þá var það orðið of seint.

                               

                           

                         

Ljóð nr. 000043 

                               

Gaman þegar við Dagur og Steinar fengum okkur aðeins í glas og vorum skáld.

                        

Dagur teiknaði.

Steinar hugsaði.

Ég hlustaði.

                            

Svo var hringt á Borgarbíl.

                       

                         

                   

Ljóð nr. 000121 

                             

Því heimskulegri sem textinn er

                                        

þeim mun brýnna að stafsetningin sé í lagi.

  

Menntaskólinn í Reykjavík - hvenær brennur, hvað verður gert?

Gaman að borgin skuli hyggja á fjárfestingar. Hér vísa ég til fréttarinnar sem tengt er við hér að neðan. Spyrja mætti í framhaldi af þessu hver eigi það hús Menntaskólans í Reykjavík sem hann er oftast tengdur við þessi árin. Er það í eigu Reykjavíkurborgar eða skyldi borgin kaupa brunarústirnar þegar þar að kemur? 

Menntaskólinn í ReykjavíkTimburkumbaldinn mikli í brekkunni ofan við Lækinn hefur um nokkurt skeið verið bækistöð menntastofnunar, sem margir kannast við. Skóli þessi var settur á fót í Skálholti laust eftir miðja 11. öld en var fluttur þaðan undir lok 18. aldar. Hann hefur verið á ýmsum stöðum og borið ýmis nöfn. Lengst af hefur verið vel gert við hann í húsnæðismálum, allt eftir efnum og ástæðum á hverjum tíma, nema þá helst í seinni tíð.

Einhverju sinni og á einhverjum stað rakti ég sögu skóla þessa í hálfa níundu öld í mjög stórum dráttum. Sjálfur var ég þar nemandi í fjóra vetur ekki alls fyrir löngu og lauk þar svokölluðu stúdentsprófi vorið 1966. Gott ef ég lagði svo ekki eitthvað til málanna á Wikipedíu varðandi skólann.

Hvenær verður skóli þessi hafinn til virðingar á nýjan leik? Eru einhverjar hugmyndir um enn einn flutning hans, hugmyndir um gott húsnæði sem sæmir menntastofnun samkvæmt kröfum líðandi stundar? Eða - ætti að rífa timburkumbaldann og byggja almennilegt hús á sama stað? Eða - á að láta ruslið brenna einn góðan veðurdag og byggja í staðinn nútímalegt hús sem skemmir samt ekki að ráði heildarmyndina við Lækinn?

Fyrir fáum árum, fyrir kannski fimmtán-tuttugu árum eða svo, kom ég til Reykjavíkur og labbaði um miðbæinn og fornar slóðir í Vesturbænum þar sem ég átti heima. Ég gekk í kringum Menntaskólahúsið og tók í húninn bakdyramegin. Það var opið. Ég fór inn í gömlu kennslustofuna mína. Þar var taflan ennþá og krítin. Ég skrifaði á töfluna eitthvað á latínu. Man ekki lengur hvað það var. Kannski eins gott. 


mbl.is Reykjavíkurborg vill kaupa hús sem urðu eldi að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dúllan 2007 - nú fer að draga til tíðinda

Dúllukeppnin 2007 stendur sem hæst. Alls voru tilnefndar rúmlega 150 dúllur og nú að lokinni spennandi undankeppni standa 32 dúllur eftir. Hér er um útsláttarkeppni að ræða og til þess að komast í 16 dúllna úrslit þarf ég að sigra Bill Murray, en hann er einkennilega líkur séra Erni Bárði Jónssyni í Nesprestakalli.

 

mahmudahmadinejad-01Ég frétti ekki af þessari keppni fyrr en seint og um síðir, reyndar ekki fyrr en nú þegar ég er kominn í þrjátíu og tveggja dúllna úrslit. Gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því að ég er dúlla. Sá þetta hérna - rétt er að benda á umræðurnar sem þar hafa skapast um þetta mál. M.a. kemur fram, að einhverju sinni hafi Þórarinn V. Þórarinsson sigrað í þessari árlegu keppni. Jafnframt kemur fram, að Konráð Jónsson forstöðumaður keppninnar mun vera sonur hæstaréttardómara, sem er fæddur árið 1947 eins og ég og stúdent frá MR eins og ég. Niðurstöðum verður ekki áfrýjað, skilst mér.

 

Ég þakka vinum og velunnurum til sjávar og sveita nær og fjær, sem hafa stutt mig í þessari keppni með ráðum og dáð án þess að ég hefði um það minnstu hugmynd að ég væri að keppa. Hér er við ramman dúllu að draga enda við marga mjög frambærilega keppendur að etja. Þar má nefna t.d. Sigurð H. Richter, Hugo Chavez, Baldur Ágústsson fyrrverandi næsta forseta Íslands, Adolf Inga Erlingsson, Elías Davíðsson, Pál Pétursson, Pál Hreinsson lagaprófessor, Margeir Pétursson stjórnarformann (sem sumir segja að sé frekar ab-dúlla en dúlla), nafnana Úlfar Eysteinsson og Úlfar Eysteinsson, sem báðir eru kokkar, Bjarna Harðarson framsóknarmann, Roseanne Barr, Þórð Sveinsson lögfræðing Persónuverndar, Smára Geirsson fyrir austan, Wilson Muuga, Carl Bildt og Jónas Sen. Athygli vekur, að einungis tvær konur komust í 32ja dúllna úrslit, þær Roseanne Barr og Carl Bildt.

 

Koma svo!

 

Norðanlogn á Reykhólum - gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar og bestu þakkir fyrir liðinn vetur. Og meira en það, bestu þakkir fyrir liðin sextíu ár. Hér á Reykhólum við Breiðafjörð frjósa saman veturinn og sumarið. Það mun vita á gott sumar. Frostið var hér rúmar fjórar gráður á miðnætti og lognið algert. Sjálfvirki vindmælirinn sýndi 0,0 metra á sekúndu. Á norðan, hvernig sem á því stendur.

Reykjavík fyrir Reykvíkinga

Reykjavík er höfuðborg Íslands, eins og margir vita. En ekki allir, sýnist mér. Sumir virðast halda að Reykjavík sé einungis höfuðborg Reykjavíkur og landsbyggðinni óviðkomandi. Þetta viðhorf birtist iðulega þegar rætt er um samgöngumál. Þannig er hart barist fyrir því að losna við miðstöð innanlandsflugsins úr Vatnsmýrinni í Reykjavík.

                

Ágætur maður sagði fyrir skemmstu efnislega eitthvað á þá leið, að hans vegna mætti samgöngumiðstöð landsmanna vera í túnfætinum hjá Sturlu Böðvarssyni vestur á Snæfellsnesi eða þá norður í Héðinsfirði.

           

Þessi ágæti maður er Reykvíkingur og þarf þess vegna ekki að komast til Reykjavíkur. Og virðist ekki heldur þurfa að komast þaðan.

             

En hvað með stjórnarráðið, svo dæmi sé tekið? Og hvað með Alþingi?

              

Hvernig væri að hafa stjórnarráðið vestur á Snæfellsnesi og Alþingi norður í Héðinsfirði?

                

Sú tilhögun gæti stuðlað að þrískiptingu ríkisvaldsins hérlendis.

               

Minnir fyrirsögnin ykkur annars á eitthvað?

 

Skemmtileg útskriftarferð til Kaliforníu - hver borgar brúsann?

Fréttin um ferð sendinefndar Alþingis til Kaliforníu vekur ýmsar spurningar. Frétt mbl.is er byggð á tilkynningu á vef Alþingis.

 

Á báðum stöðum koma sömu efnisatriðin fram.

 

Á báðum stöðum koma sömu efnisatriðin ekki fram.

 

Orðalagið í tilkynningunni frá Alþingi vekur í vissum tilvikum sérstaka athygli:

                                      

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, og eiginmaður hennar, Kristinn Björnsson, munu heimsækja Kaliforníu ...          

                            

Með þeim í för verða þingmennirnir Sigríður Anna Þórðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Hjálmar Árnason, auk Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, og Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðamála.         

                           

Sendinefndin mun koma við í Los Angeles, Santa Monica, Monterey og San Francisco, auk höfuðborgarinnar Sacramento.        

                         

Sumsé: Það eru forseti Alþingis og maki sem fara í heimsóknina. Fimm manns í viðbót verða með þeim í för. Hópurinn í heild kallast sendinefnd.

 

Í tilkynningunni kemur fram hvað sendinefndin aðhefst þá viku sem heimsóknin í Kaliforníu stendur:

                                  

Rætt verður við forseta efri og neðri deildar fylkisþingsins og ýmsa fylkisþingmenn, meðal annars nefndarformenn, leiðtoga meiri og minni hluta þingsins og fleiri. Þess má geta að einn fylkisþingmaðurinn, Tom Torlakson, er af íslenskum ættum. Sendinefndin mun einnig funda með vararíkisstjóra Kaliforníu, yfirmanni heimavarna fylkisins, viðskiptaráðherra, sveitarstjórnarmönnum, rektor og ýmsum prófessorum Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, sérfræðingum og háttsettum embættismönnum á sviði umhverfis- og orkumála og fulltrúum viðskiptalífsins. Þá mun sendinefndin hitta Helga Tómasson, listrænan stjórnanda San Francisco ballettsins.        

                      

En - þarna er ekki svarað spurningunni um tilganginn með þessari sendinefnd, tilganginn með þessum gríðarlegu viðræðum, tilganginn með öllum þessum fundum.

 

Ef til vill hefði mátt ætla, að sendinefnd af þessu tagi væri ætlað að kynnast viðhorfum og starfsháttum og koma síðan heim með gagnlega þekkingu í farteskinu. Ætla mætti að þingmennirnir myndu nýta sér afrakstur ferðarinnar í vinnu sinni á Alþingi. Meðvituð víkkun á sjóndeildarhring, eða þannig. Starfskynning.

                          

En þessir þingmenn eru allir hættir!

                               

Alþingi hefur lokið störfum. Nýtt þing verður kosið eftir tæpan mánuð. Fyrir liggur að Sólveig Pétursdóttir verður ekki meðal þingmanna á næsta þingi, ekki Sigríður Anna Þórðardóttir, ekki Margrét Frímannsdóttir, ekki Hjálmar Árnason. Og þá ekki Kristinn Björnsson, sem líklegt má telja að verði einkum í forsvari fyrir sendinefnd Alþingis á fundunum með fulltrúum viðskiptalífsins.

                        

Er þetta eins konar útskriftarferð?

                          

Útskriftarferð - þar sem ekki verður farið á sólarströnd eða í næturklúbba eða skemmtigarða eða kvikmyndaverin í Hollywood eða á spennandi veitingastaði eða í berjamó, heldur á fundi! Þrotlausa fundi með þingmönnum og formönnum nefnda, vararíkisstjóranum - hvar verður Schwarzenegger? - og hreppsnefndarmönnum, sérfræðingum og prófessorum, embættismönnum og arftökum Kenneths Lay, og eru þá ekki allir upp taldir.

                             

Spennandi útskriftarferð, eða hvað?

                           

Kannski verður farið í bíó til að sjá Schwarzenegger.

                            

Áleitin spurning til viðbótar: Verður enginn túlkur með í för?

                         

Og svo þessi: Hver borgar brúsann?

                        

Það mætti hringja og spyrja út í þetta - tilkynningunni á vef Alþingis lýkur svona: Nánari upplýsingar um heimsóknina fást hjá almannatengsladeild í síma 563 0651 og 897 5672.  

                      

Skelfing er þetta annars óheppilegt svona rétt fyrir kosningar.

                       

Eða hvað finnst almannatengsladeildinni?

                                                     

En þvílík lukka samt, að ferð sendinefndarinnar stangaðist ekki á við landsfundi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og framsóknarpönnukökukosningakaffiveitingafagnaðinn á Selfossi.

 
mbl.is Forseti Alþingis í heimsókn til Kalíforníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Man in Black

Best get ég trúað að Geir Haarde sé bestur söngmaður og líflegastur á sviði af þeim sem gegnt hafa formennsku í Sjálfstæðisflokknum í bráðum áttatíu ára sögu hans. Líklega hefur samt Ólafur Thors verið frjálslegastur í fasi og Davíð Oddsson hefur áreiðanlega verið kvikkastur og skemmtilegastur í tilsvörum. Hver hefur til síns ágætis nokkuð. Hinn trausti Jón Þorláksson reytti víst ekki af sér brandarana og Geir Hallgrímsson mótaðist mjög af þeirri ábyrgð sem á honum hvíldi.

 
mbl.is Geir Haarde tók Johnny Cash
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband