Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Kristin kenning og handhafar hennar

Ég sá það hjá guðfræðingi hér á Moggabloggi, að hugmyndir rúmlega fjörutíu íslenskra presta gangi gegn kristinni kenningu.

                                

Spurningin er þessi: Hver er með hinn eina sannleik í sínum höndum? Er það Jón Valur Jensson guðfræðingur? Eða biskupinn? Eða páfinn?

                        

Eða kannski Jesú Kristur?

 

Eða þá:

                                                 

Er yfirleitt einhver með hinn eina og endanlega sannleik í sínum höndum?

                                    

A.m.k. ekki ég. Enda ekki guðfræðingur.

                                             

P.s.: Mér skilst að téður guðfræðingur sé ekki vígður maður. Er hann þá í óvígðri sambúð við guðdóminn?


Mitt er að yrkja ...

Mitt er að yrkja, ykkar að skilja, sagði séra Matthías þegar hann var spurður hvað hann hefði meint á tilteknum stað.

 

Ég er hræddur um að einhver hafi misskilið bloggið mitt í gær, tekið orð mín bókstaflega - og talið mig ósáttan við að leyfilegt skuli vera að kaupa sér eitthvað að éta á stórhátíðum.

 

Það er öðru nær. Í því ljósi ber einnig að skoða orð mín um faðm fjölskyldunnar og það sem húsmóðirin eldar.

 

Aldrei hefði séra Matthías farið að útskýra orð sín með þessum hætti. En hann var heldur ekkert að reyna að vera kaldhæðinn.

 

Siðgæði á stórhátíðum

Heimur versnandi fer, einkum þó hin síðari ár, eins og hann hefur gert frá öndverðu. Nú er svo komið, að leyfilegt er að kaupa sér eitthvað að éta á föstudaginn langa, en slíkt var lengi bannað, enda spillir það allsherjarfriði og siðgæði. Auðvitað eiga allir að vera í faðmi fjölskyldunnar á stórhátíðum og borða það sem húsmóðirin eldar.

 

Annars rakst ég á málsgrein hjá öðrum bloggara, sem ég leyfi mér að gera einnig að mínum orðum. Hann var að fjalla um ramakvein út af einhverri samkomu núna í dag (sem ég er búinn að gleyma hver er) og sagði eitthvað á þessa leið:

                                         

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé heillaríkara að huga að því sem maður sjálfur gerir en hafa sífellt áhyggjur af háttalagi annarra. 

Krosstré bregðast eins og aðrir raftar ...

„En Frjálslyndi flokkurinn er nú orðinn vænlegur kostur fyrir lífsverndarsinna, sem gefizt hafa upp á sínum fyrri flokkum, þeim sem um áratuga skeið hafa staðið vörð um nánast óheftar fósturdeyðingar hér á landi“, segir Jón Valur Jensson guðfræðingur á bloggi sínu í gær. Þar greinir hann frá vasklegri framgöngu þingmanna Frjálslynda flokksins til að „bregða fæti fyrir“ frumvarp um nýtingu stofnfrumna til rannsókna og lækninga.

 

Í dag skrifar hinn frjálslyndi guðfræðingur tímabæran pistil undir fyrirsögninni Almannafé ausið í samkynhneigða. Þar kemur enn betur fram hvernig sjálft gamla krosstréð Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist sönnum kristnum lífsgildum:

                                                 

Nú hefur samkynhneigðum tekizt að narra borgarstjórann í Reykjavík, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, til að lofa "Gay-Pride-hátíðinni" fjögurra milljóna króna framlagi úr borgarsjóði árlega næstu þrjú árin!

- - -                     

Koss Vilhjálms á karlmannshönd í stórfurðulegu gervi "drottningar" er lifandi staðfesting þess, að jafnvel þvílíkan ágætismann er hægt að leiða í björg tízkuhyggju og yfirborðsmennsku. Fjarri hefur það verið hugsun hans, hve margir hafa hneykslazt á því stripli og þeim ósæmilegu háðsútfærslum, sem oft hefur mátt horfa upp á í nefndum göngum homma og lesbía. Annar og miklu alvarlegri þáttur í ásókn þessa hóps, sem áberandi var við síðasta "Gay Pride", var hin fráleita kröfugerð um að hommar fái að gefa blóð ...                                 

- - -                                                            

Hér er kominn tími til að spyrna við fótum, en það verður ekki gert með því að styðja Sjálfstæðisflokkinn til dáða, því að dáðirnar reynast sumar hverjar hinar mestu ódáðir, þegar betur er skoðað ...

                                                

Já, svona bregðast krosstrén eins og aðrir raftar (ekki veit ég hvers vegna orðið raftur sækir á hugann þessa dagana).

 

En þó að fokið sé í flest skjól eiga frjálslyndir menn hæli tryggt í Frjálslynda flokknum, sem betur fer.

 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband