Færsluflokkur: Bloggar

Engir bananar frá Íslandi

Rakst á þetta í Morgunblaðinu fyrir sextíu árum:

 

Nokkur bresk blöð hafa undanfarið birt rosafregnir um að nú væri hægt að fá nóg af banönum frá Íslandi. Merkt blað eins og Yorkshire Post skrifar alllanga grein um málið og skýrir út hvernig á því standi, að Íslendingar geti framleitt þennan lostæta ávöxt. Það er vitanlega hverahitinn, sem veldur því.

                  

Auðsjeð er á öllu, að einhver sem hjer hefir verið hefir hlaupið með þessa bananasögu. En hætt er við, að það verði að bíða enn um stund, að Bretar fái að kitla bragðlauka sína með íslenskum banönum.

                     

(5. júlí 1947)

 

Á Mogga fyrir fjörutíu árum: Þegar stórmenni tala ...

Svo vill til, að í dag eru liðin fjörutíu ár frá því að fyrstu skrifin mín birtust í Morgunblaðinu. Það var föstudaginn 26. maí 1967. Daginn áður kom ég þar til starfa og vann alla tíð undir leiðsögn Matthíasar, sem ég hef nánast dýrkað alla tíð síðan. Samkvæmt reynslunni er ég þó manna ólíklegastur til þess að dýrka að nokkru ráði þá sem yfir mig eru settir! Þarna um vorið varð ég tvítugur, en ári fyrr hafði ég lokið stúdentsprófi frá MR og farið síðan í skóla erlendis.

 

Vinnan mín á Mogganum var mér að flestu leyti skemmtileg. Til gamans smelli ég samt hér inn klausu um erfið andartök á þessu sumri fyrir fjörutíu árum, sem enn sitja í mér. Líkt og stundum endranær er hér gripið niður í minningabrot frá langri ævi, sem ég hef klórað saman á vegferðinni mér til dundurs. Hefst svo lesturinn, eins og þar stendur:

                         

Eitt af verkefnum mínum þetta sumar var að fara með í árlega Varðarferð, sem á þeim tíma var allmikill viðburður hjá rosknu sjálfstæðisfólki og Morgunblaðinu. Meðal annars var áð í einhverju helsta kríuvarpinu suður á Rosmhvalanesi, nálægt Krísuvík ef ég man rétt, og þar flutti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins ávarp. Hann var með göngustaf í hendi og veifaði honum yfir höfði sér meðan hann flutti ávarpið, enda ekki vanþörf á. Ekki heyrðist mannsins mál fyrir látunum í kríunni. Meira að segja ég, sem þá var ungur og vel heyrandi og mjög nærstaddur, heyrði nánast ekkert nema kríugargið. Hvað þá gamla sjálfstæðisfólkið, sem var meira og minna farið að tapa heyrn, en samsinnti ræðu ráðherrans þó ákaflega og fagnaði eins og fólk gerir jafnan þegar stórmenni tala.

Svo var komið heim á Mogga og ferðasagan færð í letur. Ég sagði Matthíasi að ég vissi ekkert hvað Bjarni hefði verið að segja - ég hefði ekki haft í mér uppburði til þess að fara til hans strax á eftir og spyrja - og spurði hvernig ég ætti að snúa mér í þessu. Matthías sagði mér að hringja bara í Bjarna, sinn gamla vin og gamla Moggaritstjóra, og biðja hann að segja mér inntakið í ræðunni. Ég hringdi og bar upp erindið. Bjarni var greiður til svars og svaraði með miklum gný - og ég man (og heyri) svarið orðrétt enn í dag: Ég hef annað við minn tíma að gera en gera referöt fyrir blaðamenn Morgunblaðsins. Síðan skellti hann á.

Og þarna sat strákræfillinn eftir við skrifborðið á Mogga eins og barinn hundur með símtólið í hendinni og grét. Grenjaði af vanmætti og skömm. Það þyrmdi yfir mig, heitir það víst - fremur vond tilfinning.

Skömmu síðar kom inn til mín Friðrik Sigurbjörnsson og rifjaði upp línur úr Einræðum Starkaðar eftir Einar Ben ...

 


Laus pláss í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum

Hvenær ætli við fáum fleiri - missum fleiri, öllu heldur - sem teljast verðugir vistar í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum - Arlington okkar Íslendinga? Þar hvíla nú tveir menn. Þetta rifjast upp núna vegna þess að 26. maí er dánardagur Jónasar Hallgrímssonar, sem þar er grafinn.

 

Heiðursgrafreiturinn á Þingvöllum var gerður árið 1939. Strax þá um veturinn andaðist Einar Benediktsson og var jarðsettur þar. Svo liðu öll stríðsárin og ekki dóu fleiri merkir Íslendingar, þannig að til þess bragðs var tekið að sækja Jónas Hallgrímsson sem andast hafði í Danmörku hundrað árum fyrr. Leifar hans voru grafnar á Þingvöllum 16. nóvember 1946. Þann dag hefði Jónas orðið 139 ára hefði hann lifað, eins og stundum er komist að orði.

 

Og svo ekki söguna meir.

 

Skyldi þeim ekki leiðast þarna tveimur einum? Þarf ekki að fara að gera eitthvað í málinu?

 

Njálsgatan úr sögunni - heimilisleysingjar verði vistaðir í Hrísey

Bakslag er komið í þau áform Reykjavíkurborgar, að tíu manns úr hópi þeirra, sem minnst mega sín og ekkert eiga, verði búið heimili í húsi við Njálsgötuna. Þessi áform hafa vakið hörð viðbrögð fólks sem býr í grenndinni og vill ekki hafa fólk af því tagi í sínu hverfi, eins og skiljanlegt er.

 

Við þessu er ekkert að segja. Líklegt má telja, að fólkið sem býr í þessu hverfi sé ekki frábrugðið fólki í öðrum hverfum eða fólki yfirleitt. Líklegt má telja, að slík viðbrögð komi fram í hvaða hverfi sem væri. Hafa raunar gert það. Ekki eykur það virðingu nokkurs hverfis, að heimilislausir eigi þar heimili.

 

Hvað er þá til ráða? Einhvers staðar verða vondir að vera, eins og sagt er.

 

Einboðið er, úr því að ekki er við hæfi að heimilislausum verði búið heimili í hverfi, að þeir verði utan hverfa. Utan samfélags við sómakært fólk, sannkristið vinnandi fólk, utan samfélags við aðra, líkt og drengirnir í Breiðavík á sínum tíma.

 

Í Hrísey var lengi einangrunarstöð (sóttkví) fyrir gæludýr. Þeirri starfsemi hefur verið hætt á þeim stað.

 

Alltaf er verið að tala um að flytja verkefni út á landsbyggðina og snúa vörn í sókn í baráttunni gegn fólksfækkun á landsbyggðinni. Væri það ekki hið besta mál, að fólk sem er með lögheimili óstaðsett í hús, eins og það heitir - heimilisleysingjar, gæludýr borgaryfirvalda að mati fólksins í grennd við Njálsgötu 74 - fái í senn heimili og lögheimili í einangrunarstöðinni í Hrísey?

 

Styðjast mætti á ýmsan hátt við reglugerð nr. 432/2003 um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr. Einungis komi orðið heimilisfólk í staðinn fyrir orðið dýr og nöfn dýrategunda. Hér má t.d. nefna 6. og 7. gr. reglugerðarinnar:

 

6. gr.
Ytri varnir.

 

Umhverfis einangrunarstöð skal reisa vegg eða girðingu að lágmarki 180 cm á hæð. Sé veggur eða girðing lægri en 3 m skal bæta þar ofan á a.m.k. 60 cm hárri vírnetsgirðingu, sem hallar 45° út á við. Girðingin skal vera úr vír að lágmarki 2,0 mm í þvermál og má möskvastærð ekki vera meiri en 5 cm. Sé útveggur byggingar hluti ytri marka stöðvarinnar skal hann vera heill, án dyra. Ytri varnir skulu grafnar það djúpt í jörðu að dýr geti ekki grafið undir þær. Útivistarsvæði fyrir hunda og ketti skulu útbúin með þaki úr vírneti til að hindra strok.

7. gr.
Innri varnir.

 

Einangrunarstöð skal þannig byggð að minnst þrjár dyr [Innskot: Í mínu ungdæmi var talað um þrennar dyr] skilji að dýrin og ytri varnir stöðvarinnar. Þetta á þó ekki við um neyðarútganga. Allar deildir einangrunarstöðvar þar sem dýr eru í búrum skulu hafa tvennar dyr, ytri og innri dyr, og myndi hindrun, þannig að dýrið geti ekki sloppið út þó það losni. Báðar dyr skulu opnast inn á við og lokast sjálfkrafa. Á hurð innri dyra skal vera gluggi eða útsýnisauga. Óheimilt er að nýta svæðið milli dyranna sem skrifstofu eða geymslu. Hurðir, lásar, lásajárn og lokunarbúnaður skulu ávallt vera í góðu lagi. Öll búr skulu þannig úr garði gerð að dýr geti ekki brotist út úr þeim. Gluggar í þeim herbergjum þar sem dýr eru, skulu útbúnir með sérstyrktu gleri eða með vírneti að innan- eða utanverðu. Á opnanlegum gluggum skal vera hindrun úr vírneti eða öðru sambærilegu efni, a.m.k. 2,0 mm í þvermál og hámarksmöskvastærð 5,0 cm x 5,0 cm.

 

Tilvitnun lýkur.

 

Þannig er ýmislegt í reglugerðinni, sem styðjast mætti við. Í ljósi þess hver staða mín í samfélaginu er orðin velti ég því fyrir mér, hvort hægt verði að hafa einhverja persónulega muni meðferðis á heimili af þessu tagi. Þess er ekki getið í reglugerðinni. Varla voru hundarnir með bækurnar sínar á náttborðinu, svo dæmi sé tekið.

 

Hitt er svo annað mál, að til eru skilvirkari leiðir til þess að láta sér líða vel.

 

Hvenær fáum við Surtshellisstjórnina?

Kosningarnar sem leiddu til stjórnarskiptanna voru 12. maí, sama daginn og úrslitin í Evróvisjón. Nýja stjórnin sest að völdum á morgun, 24. maí. Þann dag árið 1956 var fyrsta Evróvisjónkeppnin haldin. Ein hugmyndin enn að nafni á stjórnina?

Viðey skipar virðulegan sess í íslenskri sögu. Þeir Davíð og Jón Baldvin vissu hvað þeir voru að gera þegar þeir fóru út í Viðey og mynduðu þá stjórn sem síðan er kennd við staðinn. Geir og Ingibjörg Sólrún áttu ekki um marga virðulegri staði að velja til að berjast á móti Baugsstjórnarnafngift eða einhverju þaðan af verra.

Skálholt, eða Þingvellir! Þingvallastjórnin verður ekki toppuð í virðuleika. Að minnsta kosti ekki hvað nafnið varðar.

En hvert verður þá farið næst? Kannski verður byrjað á nýju þema. Virðulegir sögustaðir hafa verið afgreiddir. Næst mætti velja staði á borð við Surtshelli eða Kolbeinsey. Og einn staður enn sem ekki verður toppaður hérlendis. Í bókstaflegri merkingu. Hvannadalshnjúkur.

Hljómar ekki Hvannadalshnjúksstjórnin nokkuð lipurlega?


Öfundartaut Ólínu Þorvarðardóttur varðandi Flateyri

Mér kemur verulega á óvart, að það skuli koma nokkrum á óvart að kvótinn skuli hafa verið seldur frá Flateyri. Hvernig getur það komið á óvart að menn eigi viðskipti í nútímaþjóðfélagi? Ég hefði kannski skilið að Gísli heitinn á Uppsölum í Selárdal við Arnarfjörð hefði ekki skilið þetta. En ekki núlifandi menn sem fylgjast með samfélagsmálum. Þetta er einfaldlega eðlilegur partur af því kerfi í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa skapað. Gísli á Uppsölum var aldrei núlifandi maður.

 

Næst lýsa menn kannski furðu sinni á því að vatn skuli renna niður í móti. Það gerði það ekki í frostakaflanum í vor! Gerðist reyndar við norðanverðan Dýrafjörð á sínum tíma, ef marka má Gísla sögu Súrssonar. Kannski verða menn líka hissa á því að sólin skuli skína fram eftir kvöldi. Hún gerði það ekki í vetur!

 

Ólína Þorvarðardóttir fárast yfir því - vinstra öfundarliðinu líkt! - að aðaleigandi Kambs hafi nettó um tvo milljarða króna í aðra hönd eftir átta ára vinnu. Tvo milljarða! Það er ekki nema jafnvirði sæmilegrar afmælisveislu með þokkalegum skemmtikrafti - Elton John kæmi til greina, eða Facon á Bíldudal - ásamt kannski skitnum hundrað milljónum í aflátssjóð þannig að tryggð sé eilífðarvist í Himnaríki hjá Guði.

 

Var ekki einmitt boðað til messu í Flateyrarkirkju til að ganga formlega frá þessu við Guð?

 

Það sýnir best hversu vonlaus sjávarútvegurinn er hérlendis, að menn sem byrjuðu gjafakvótalausir á núlli fyrir átta árum skuli ekki hafa eftir í aðra hönd nema tvo milljarða nettó þegar þeir loksins gefast upp. Einhver verkamaðurinn hefði nú gefist upp á þeim kjörum og bara keypt sér hús á Spáni! Sem betur fer er staða þeirra sem fengu gjafakvótann frá þjóðinni á sínum tíma heldur skárri. Þar er ekki verið að telja í stökum milljörðum.

 

Hvernig vinstra öfundarfólkið getur látið!

 

Núna er Ísafjarðarbær að hugsa um að stofna nefnd til að athuga hvort rétt sé að stofna nefnd til að athuga hvort rétt sé að stofna félag til að athuga hvort rétt sé að athuga með hugsanleg kaup á eignum Flateyrar. Ísafjarðarbær er alveg eins hissa og Gísli á Uppsölum hefði verið. En sumir aðrir eru ekki lengi að átta sig á hlutunum. Fram kemur í fréttum að þegar sé búið að selja mestan partinn af eignum Flateyringa.

 

Jafnvel þó að enginn hafi vitað neitt fyrr en löngu eftir kosningar.

 

Sem voru fyrir rúmri viku.

 

Lambakjöt frá Nýja-Sjálandi - en hvað með þorsk?

Senn verður farið að flytja inn lambakjöt frá Nýja-Sjálandi, nú þegar Guðna nýtur ekki lengur við í landbúnaðarráðuneytinu. Annað þætti mér samt ennþá brýnna að flytja inn: Þorsk, hvar í andskotanum sem hann myndi annars fást. Kannski á Nýja-Sjálandi eins og lambakjötið? Ég man ekki almennilega lengur hvar í heiminum þorskur veiðist.

 

Í uppvextinum vandist ég því að éta fisk og þótti nýr þorskur góður. Hann fékkst iðulega í fiskbúðum syðra þegar ég átti heima í Reykjavík en eftir að ég settist að vestur á fjörðum fyrir rúmum tuttugu árum sá ég hann ekki meir. Reyndar ekki annan fisk en niðursoðinn túnfisk frá Tælandi með Ora-merkingum. Sagt var að ekkert þýddi að hafa fisk til sölu, hann seldist ekki neitt því að allir gætu fengið hann ókeypis. Það gilti reyndar ekki um mig. Auk þess var mér sagt að Íslendingar ætu ekki þorsk og allra síst Vestfirðingar.

 

Líklega er bráðum aldarfjórðungur síðan ég hef étið nýveiddan þorsk eða yfirleitt séð hann á boðstólum. Hversu ferskur hann yrði eftir flutning frá Nýja-Sjálandi eða Vancouver eða Kamtsjatka og hingað vestur veit ég ekki. Líklega samt ámóta ferskur og lambakjötið.

 

Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni

Stjórnarmyndunarkjaftæðið sem tók við af kosningabaráttukjaftæðinu og síðan kosningaúrslitakjaftæðinu í öllum fjölmiðlum hefur sín áhrif. Mig er farið að dreyma pólitíska drauma. Ekki vökudrauma um síðbúinn frama á þeim vettvangi heldur svefndrauma um myndun ríkisstjórnar. Kannski skömminni til skárra en að dreyma reglugerð um innflutning á búvörum, eins og henti mig fyrir stuttu.

 

Mig dreymdi í nótt að Ingibjörg Sólrún hefði slitið viðræðum við Geir H. Haarde og væri búin að mynda stjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum.

 

Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni, eins og kallinn sagði við kellinguna þegar hana dreymdi að guð hefði tekið hana til sín.

          

 

Post mortem scriptum:

 

Sagan af Nínu (Ingibjörgu) og Geira kom upp í huga mér núna áðan af einhverjum ástæðum. Ég gúglaði hana til upprifjunar og sá mér til skemmtunar, að höfundurinn er Jón Sigurðsson. Leyfi mér að smella inn fyrsta og síðasta erindinu.

 

Ef þú vilt bíða eftir mér

á ég margt að gefa þér,

alla mína kossa, ást og trú

enginn fær það nema þú.

– – –        

Geiri elskan, gráttu ei,

gleymdu mér, ég segi nei.

Þú vildir mig ekki veslings flón

Því varð ég að eiga vin þinn Jón.

          

Texti: Jón Sigurðsson.

Lag: Twitty.       

 

Allt sem Björn Bjarnason gerir eða gerir ekki, segir eða segir ekki ...

Væntanlega koma nú einhverjir bloggarar, auk þeirra sem liggja nótt sem nýtan dag á spjallvefjum og hafa ekkert annað að gera, og veitast að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra með svívirðingum í tilefni fréttar um nýja lögreglubíla í Reykjavík. Skv. fréttinni er hér um að ræða litla bíla og verður Birni þess vegna úthúðað fyrir að þeir skuli ekki vera stórir. Hefðu þeir hins vegar verið stórir, þá hefði verið ráðist á Björn vegna þess hvað þeir væru stórir og dýrir. Jafnframt verður ráðist á hann vegna þess að bílarnir skuli vera svona fáir, eða svona margir. En hvort dómsmálaráðherra ákveður kaupin á einstökum bílum fyrir einstök umdæmi lögreglunnar, stærð þeirra og gerð og lit og áklæði á sætum og þar fram eftir götunum, er svo allt annað mál. Meginatriðið er að úthúða Birni Bjarnasyni.

 

Fram kemur, að nýju lögreglubílarnir séu rækilega merktir lögreglunni. Það er nú eitt. Þetta er enn eitt dæmið um lögregluríkistilburði dómsmálaráðherra. Ef þeir hefðu hins vegar verið ómerktir, þá hefði það verið enn eitt dæmið um leynilögreglutilburði dómsmálaráðherra.

 

Ég hef fylgst nokkuð með skrifum um Björn Bjarnason á spjallvefjum og bloggsetrum og víðar undanfarin misseri. Svo virðist, sem allnokkur hópur fólks sé haldinn þeirri þráhyggju, að allt skuli fordæmt sem Björn gerir, og líka það sem hann gerir ekki. Enn fremur allt sem hann segir, og líka það sem hann segir ekki.

 

Almennt hefur þessi mannskapur engar forsendur eða yfirleitt neina burði til þess að dæma Björn Bjarnason og verk hans - virðist yfirleitt ekki vera dómbær á nokkurn skapaðan hlut nema hugsanlega ilmvötn eða kjötfars eða því um líkt. Þetta minnir einfaldlega á gjammandi og glefsandi hundahóp.

 

Tek fram að lokum, að þótt við Björn Bjarnason höfum unnið á sama vinnustað fyrir fjórum áratugum, þá stofnaðist aldrei neinn kunningsskapur með okkur, hvað þá vinskapur. Manninn hef ég heldur ekki séð eða heyrt í eigin persónu síðan. Aftur á móti fylgdist ég allvel með störfum hans þegar hann var menntamálaráðherra, enda tel ég mér þá hluti nokkuð skylda, og ég staðhæfi, að betri og dugmeiri menntamálaráðherra höfum við ekki átt, a.m.k. ekki á síðari áratugum. Ég leyfi mér að halda því fram, að Björn Bjarnason sé einstaklega samviskusamur og dugandi í embættisverkum sínum. Í þeim efnum set ég hann og Jón Sigurðsson framsóknarformann undir sama hatt - án þess að vita sosum hvort þeim ágætu mönnum líkar sá samjöfnuður vel eða illa.

 
mbl.is Litlir lögreglubílar í hverfaeftirliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm konur eða fleiri í nýrri ríkisstjórn?

Aðeins fjórar konur eru ráðherrar í þeirri stjórn sem núna er að láta af völdum, eða þriðjungurinn af ráðherrunum tólf. Við tilkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn hlýtur hlutur kvenna að verða meiri en áður, þannig að a.m.k. 40% ráðherranna verði konur. Verði fjöldi ráðherra óbreyttur frá því sem nú er, eða tólf, þá munu a.m.k. fimm konur verða í hinni nýju stjórn. Sumir munu þó telja að núna sé loksins komið að því, að hlutur kynjanna í ríkisstjórn verði jafn.

 

Spennandi verður að sjá hvaða konur verða kallaðar til ráðherradóms, auk þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Hugmyndir óskast hér í athugasemdadálkinn.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband