Færsluflokkur: Dægurmál

Volkswagen 70 ára - merkið stendur þótt maðurinn falli

„Hlutafélag til undirbúnings þýska þjóðarbílsins“ var stofnað 28. maí 1937 og telst sá dagur stofndagur Volkswagen. Segja má að þjóðarbíllinn eða almenningsbíllinn (Volks-Wagen) sé eitt þeirra hugðarefna þjóðarleiðtogans Adolfs Hitlers, sem mesta framtíð átti fyrir sér. Rétt eftir að Hitler varð kanslari Þýskalands árið 1933 hvatti hann til bílvæðingar hjá þýskum almenningi. Hann sá fyrir sér bíl sem væri hentugur fyrir fjölskyldur, gæti haldið 100 km hraða á hraðbrautum en væri þó sparneytinn og umfram allt ódýr í innkaupi.

 

VW 30 frá 1937Reyndur bílasmiður, Ferdinand Porsche að nafni, sem var austurrískur að uppruna eins og Hitler og hafði áður unnið m.a. hjá Mercedes-Benz, fékk það hlutverk að hanna og smíða þjóðarbílinn, en Samtök atvinnulífsins í Þýskalandi (Deutsche Arbeitsfront - DAF) komu að stofnun félagsins. Árið 1938 lagði Hitler hornsteininn að fyrstu Volkswagen-verksmiðjunni í Wolfsburg og fjöldaframleiðsla á VW-bjöllunni hófst.

 

Stríðið var þá rétt handan við hornið. Á stríðsárunum var VW-verksmiðjan ekki notuð til framleiðslu á almennan markað heldur til smíða á hergögnum og farartækjum fyrir herinn. Á þeim tíma störfuðu þar tugþúsundir manna í nauðungarvinnu, einkum stríðsfangar og fangar úr svokölluðum útrýmingarbúðum, svo sem gyðingar, hommar, frímúrarar og vangefið fólk og aðrir óvinir ríkisins sem hægt var að nota.

 

Eftir stríðið komst framleiðslan á þjóðarbílnum á fullan skrið á ný. Bjallan lagði ekki aðeins undir sig heimalandið heldur allan heiminn. Enn í dag eru bílar með merkjum VW og Porsche meðal þeirra allra virtustu og minna á hugsjónir Adolfs Hitlers. Merkið stendur þótt maðurinn falli, eins og sagt hefur verið ...

 

Núna er Volkswagen-samsteypan stærsti bílaframleiðandi Evrópu. Meðal þekktustu merkja hennar eru Audi, Bentley, Bugatti, Lamborghini, Seat, Skoda og Volkswagen. Aftur á móti munu Porsche-verksmiðjurnar ekki vera í eignatengslum við Volkswagen um þessar mundir þótt sambandið þar á milli hafi löngum verið mjög náið. Ferdinand Piëch, stjórnarformaður Volkswagen-samsteypunnar, er dóttursonur Ferdinands Porsche og stór hluthafi í Porsche-verksmiðjunum.

  

Helstu heimildir: Spiegel.de, Wikipedia.de.

 

Engir bananar frá Íslandi

Rakst á þetta í Morgunblaðinu fyrir sextíu árum:

 

Nokkur bresk blöð hafa undanfarið birt rosafregnir um að nú væri hægt að fá nóg af banönum frá Íslandi. Merkt blað eins og Yorkshire Post skrifar alllanga grein um málið og skýrir út hvernig á því standi, að Íslendingar geti framleitt þennan lostæta ávöxt. Það er vitanlega hverahitinn, sem veldur því.

                  

Auðsjeð er á öllu, að einhver sem hjer hefir verið hefir hlaupið með þessa bananasögu. En hætt er við, að það verði að bíða enn um stund, að Bretar fái að kitla bragðlauka sína með íslenskum banönum.

                     

(5. júlí 1947)

 

Á Mogga fyrir fjörutíu árum: Þegar stórmenni tala ...

Svo vill til, að í dag eru liðin fjörutíu ár frá því að fyrstu skrifin mín birtust í Morgunblaðinu. Það var föstudaginn 26. maí 1967. Daginn áður kom ég þar til starfa og vann alla tíð undir leiðsögn Matthíasar, sem ég hef nánast dýrkað alla tíð síðan. Samkvæmt reynslunni er ég þó manna ólíklegastur til þess að dýrka að nokkru ráði þá sem yfir mig eru settir! Þarna um vorið varð ég tvítugur, en ári fyrr hafði ég lokið stúdentsprófi frá MR og farið síðan í skóla erlendis.

 

Vinnan mín á Mogganum var mér að flestu leyti skemmtileg. Til gamans smelli ég samt hér inn klausu um erfið andartök á þessu sumri fyrir fjörutíu árum, sem enn sitja í mér. Líkt og stundum endranær er hér gripið niður í minningabrot frá langri ævi, sem ég hef klórað saman á vegferðinni mér til dundurs. Hefst svo lesturinn, eins og þar stendur:

                         

Eitt af verkefnum mínum þetta sumar var að fara með í árlega Varðarferð, sem á þeim tíma var allmikill viðburður hjá rosknu sjálfstæðisfólki og Morgunblaðinu. Meðal annars var áð í einhverju helsta kríuvarpinu suður á Rosmhvalanesi, nálægt Krísuvík ef ég man rétt, og þar flutti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins ávarp. Hann var með göngustaf í hendi og veifaði honum yfir höfði sér meðan hann flutti ávarpið, enda ekki vanþörf á. Ekki heyrðist mannsins mál fyrir látunum í kríunni. Meira að segja ég, sem þá var ungur og vel heyrandi og mjög nærstaddur, heyrði nánast ekkert nema kríugargið. Hvað þá gamla sjálfstæðisfólkið, sem var meira og minna farið að tapa heyrn, en samsinnti ræðu ráðherrans þó ákaflega og fagnaði eins og fólk gerir jafnan þegar stórmenni tala.

Svo var komið heim á Mogga og ferðasagan færð í letur. Ég sagði Matthíasi að ég vissi ekkert hvað Bjarni hefði verið að segja - ég hefði ekki haft í mér uppburði til þess að fara til hans strax á eftir og spyrja - og spurði hvernig ég ætti að snúa mér í þessu. Matthías sagði mér að hringja bara í Bjarna, sinn gamla vin og gamla Moggaritstjóra, og biðja hann að segja mér inntakið í ræðunni. Ég hringdi og bar upp erindið. Bjarni var greiður til svars og svaraði með miklum gný - og ég man (og heyri) svarið orðrétt enn í dag: Ég hef annað við minn tíma að gera en gera referöt fyrir blaðamenn Morgunblaðsins. Síðan skellti hann á.

Og þarna sat strákræfillinn eftir við skrifborðið á Mogga eins og barinn hundur með símtólið í hendinni og grét. Grenjaði af vanmætti og skömm. Það þyrmdi yfir mig, heitir það víst - fremur vond tilfinning.

Skömmu síðar kom inn til mín Friðrik Sigurbjörnsson og rifjaði upp línur úr Einræðum Starkaðar eftir Einar Ben ...

 


Laus pláss í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum

Hvenær ætli við fáum fleiri - missum fleiri, öllu heldur - sem teljast verðugir vistar í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum - Arlington okkar Íslendinga? Þar hvíla nú tveir menn. Þetta rifjast upp núna vegna þess að 26. maí er dánardagur Jónasar Hallgrímssonar, sem þar er grafinn.

 

Heiðursgrafreiturinn á Þingvöllum var gerður árið 1939. Strax þá um veturinn andaðist Einar Benediktsson og var jarðsettur þar. Svo liðu öll stríðsárin og ekki dóu fleiri merkir Íslendingar, þannig að til þess bragðs var tekið að sækja Jónas Hallgrímsson sem andast hafði í Danmörku hundrað árum fyrr. Leifar hans voru grafnar á Þingvöllum 16. nóvember 1946. Þann dag hefði Jónas orðið 139 ára hefði hann lifað, eins og stundum er komist að orði.

 

Og svo ekki söguna meir.

 

Skyldi þeim ekki leiðast þarna tveimur einum? Þarf ekki að fara að gera eitthvað í málinu?

 

Njálsgatan úr sögunni - heimilisleysingjar verði vistaðir í Hrísey

Bakslag er komið í þau áform Reykjavíkurborgar, að tíu manns úr hópi þeirra, sem minnst mega sín og ekkert eiga, verði búið heimili í húsi við Njálsgötuna. Þessi áform hafa vakið hörð viðbrögð fólks sem býr í grenndinni og vill ekki hafa fólk af því tagi í sínu hverfi, eins og skiljanlegt er.

 

Við þessu er ekkert að segja. Líklegt má telja, að fólkið sem býr í þessu hverfi sé ekki frábrugðið fólki í öðrum hverfum eða fólki yfirleitt. Líklegt má telja, að slík viðbrögð komi fram í hvaða hverfi sem væri. Hafa raunar gert það. Ekki eykur það virðingu nokkurs hverfis, að heimilislausir eigi þar heimili.

 

Hvað er þá til ráða? Einhvers staðar verða vondir að vera, eins og sagt er.

 

Einboðið er, úr því að ekki er við hæfi að heimilislausum verði búið heimili í hverfi, að þeir verði utan hverfa. Utan samfélags við sómakært fólk, sannkristið vinnandi fólk, utan samfélags við aðra, líkt og drengirnir í Breiðavík á sínum tíma.

 

Í Hrísey var lengi einangrunarstöð (sóttkví) fyrir gæludýr. Þeirri starfsemi hefur verið hætt á þeim stað.

 

Alltaf er verið að tala um að flytja verkefni út á landsbyggðina og snúa vörn í sókn í baráttunni gegn fólksfækkun á landsbyggðinni. Væri það ekki hið besta mál, að fólk sem er með lögheimili óstaðsett í hús, eins og það heitir - heimilisleysingjar, gæludýr borgaryfirvalda að mati fólksins í grennd við Njálsgötu 74 - fái í senn heimili og lögheimili í einangrunarstöðinni í Hrísey?

 

Styðjast mætti á ýmsan hátt við reglugerð nr. 432/2003 um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr. Einungis komi orðið heimilisfólk í staðinn fyrir orðið dýr og nöfn dýrategunda. Hér má t.d. nefna 6. og 7. gr. reglugerðarinnar:

 

6. gr.
Ytri varnir.

 

Umhverfis einangrunarstöð skal reisa vegg eða girðingu að lágmarki 180 cm á hæð. Sé veggur eða girðing lægri en 3 m skal bæta þar ofan á a.m.k. 60 cm hárri vírnetsgirðingu, sem hallar 45° út á við. Girðingin skal vera úr vír að lágmarki 2,0 mm í þvermál og má möskvastærð ekki vera meiri en 5 cm. Sé útveggur byggingar hluti ytri marka stöðvarinnar skal hann vera heill, án dyra. Ytri varnir skulu grafnar það djúpt í jörðu að dýr geti ekki grafið undir þær. Útivistarsvæði fyrir hunda og ketti skulu útbúin með þaki úr vírneti til að hindra strok.

7. gr.
Innri varnir.

 

Einangrunarstöð skal þannig byggð að minnst þrjár dyr [Innskot: Í mínu ungdæmi var talað um þrennar dyr] skilji að dýrin og ytri varnir stöðvarinnar. Þetta á þó ekki við um neyðarútganga. Allar deildir einangrunarstöðvar þar sem dýr eru í búrum skulu hafa tvennar dyr, ytri og innri dyr, og myndi hindrun, þannig að dýrið geti ekki sloppið út þó það losni. Báðar dyr skulu opnast inn á við og lokast sjálfkrafa. Á hurð innri dyra skal vera gluggi eða útsýnisauga. Óheimilt er að nýta svæðið milli dyranna sem skrifstofu eða geymslu. Hurðir, lásar, lásajárn og lokunarbúnaður skulu ávallt vera í góðu lagi. Öll búr skulu þannig úr garði gerð að dýr geti ekki brotist út úr þeim. Gluggar í þeim herbergjum þar sem dýr eru, skulu útbúnir með sérstyrktu gleri eða með vírneti að innan- eða utanverðu. Á opnanlegum gluggum skal vera hindrun úr vírneti eða öðru sambærilegu efni, a.m.k. 2,0 mm í þvermál og hámarksmöskvastærð 5,0 cm x 5,0 cm.

 

Tilvitnun lýkur.

 

Þannig er ýmislegt í reglugerðinni, sem styðjast mætti við. Í ljósi þess hver staða mín í samfélaginu er orðin velti ég því fyrir mér, hvort hægt verði að hafa einhverja persónulega muni meðferðis á heimili af þessu tagi. Þess er ekki getið í reglugerðinni. Varla voru hundarnir með bækurnar sínar á náttborðinu, svo dæmi sé tekið.

 

Hitt er svo annað mál, að til eru skilvirkari leiðir til þess að láta sér líða vel.

 

Hvenær fáum við Surtshellisstjórnina?

Kosningarnar sem leiddu til stjórnarskiptanna voru 12. maí, sama daginn og úrslitin í Evróvisjón. Nýja stjórnin sest að völdum á morgun, 24. maí. Þann dag árið 1956 var fyrsta Evróvisjónkeppnin haldin. Ein hugmyndin enn að nafni á stjórnina?

Viðey skipar virðulegan sess í íslenskri sögu. Þeir Davíð og Jón Baldvin vissu hvað þeir voru að gera þegar þeir fóru út í Viðey og mynduðu þá stjórn sem síðan er kennd við staðinn. Geir og Ingibjörg Sólrún áttu ekki um marga virðulegri staði að velja til að berjast á móti Baugsstjórnarnafngift eða einhverju þaðan af verra.

Skálholt, eða Þingvellir! Þingvallastjórnin verður ekki toppuð í virðuleika. Að minnsta kosti ekki hvað nafnið varðar.

En hvert verður þá farið næst? Kannski verður byrjað á nýju þema. Virðulegir sögustaðir hafa verið afgreiddir. Næst mætti velja staði á borð við Surtshelli eða Kolbeinsey. Og einn staður enn sem ekki verður toppaður hérlendis. Í bókstaflegri merkingu. Hvannadalshnjúkur.

Hljómar ekki Hvannadalshnjúksstjórnin nokkuð lipurlega?


Svolítið ítarefni um leyndarmál fyrir vestan ...

Rakst á þetta hér á blogginu hjá Víkaranum Baldri Smára Einarssyni. Leyfi mér að bæta við svolitlu ítarefni um húsið sem um ræðir, Einarshús eða Péturshús niðri á Mölunum í Bolungarvík. Þar er nú veitingastaður. Í eina tíð héldu sumir að þar væri almennur veitingastaður þó að svo væri í rauninni ekki, eins og fram kemur hér fyrir neðan. Þegar Pétur Oddsson bjó þarna var þetta hús sorgarinnar en í tíð Einars Guðfinnssonar var það hús gleðinnar. Og svo er enn.

 

Kjallarinn í Einarshúsi 01Veitingastaðurinn Kjallarinn er í einu af elstu og merkustu húsum Bolungarvíkur, Einarshúsi við Hafnargötuna, sem áður nefndist Péturshús og var byggt árið 1904. Ragna Magnúsdóttir er vert í Kjallaranum, en eiginmaður hennar, Jón Bjarni Geirsson, keypti húsið á 50 þúsund krónur vorið 2003. Seljandinn var Bolungarvíkurkaupstaður, sem hafði fengið þetta sögufræga hús að gjöf frá útgerðarfyrirtækinu Nasco þremur árum áður. Húsið var afar illa farið og raunar niðurrifsmatur og minna en einskis virði, ef saga þess í bænum hefði ekki komið til. Þegar Jón Bjarni gerði tilboð sitt í húsið sagði hann að markmiðið væri „að reisa það til fyrri virðingar og koma því í upprunalegt horf“.

 

Kjallarinn í Einarshúsi 02Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í viðgerðir og endurbyggingu á þessu fornfræga húsi og miklum fjármunum varið til þeirra. Meðal annars hefur Húsafriðunarsjóður lagt fé til verksins, enda hefur húsið mikið menningarsögulegt gildi.

 

Húsið hlaut í daglegu tali nafngiftirnar Péturshús og síðan Einarshús vegna þeirra manna sem þar bjuggu ásamt fjölskyldum sínum og voru hvor á sínum tíma helstu athafnamennirnir í Bolungarvík. Þegar Pétur Oddsson reisti húsið fyrir rétt rúmri öld var það talið með stærstu og myndarlegustu íbúðarhúsum landsins. Af Pétri og fjölskyldu hans er mikil og reyndar alveg einstæð örlagasaga. Einar Guðfinnsson útgerðarmaður tók húsið á leigu árið 1935 og keypti það síðan og bjó þar nærri þriðjung aldar ásamt fjölskyldu sinni, eða allt þar til stigarnir urðu rosknu fólki heldur erfiðir.

 

Pétur Oddsson var helsti atvinnurekandinn í Bolungarvík fram undir heimskreppuna miklu. Um hann má fræðast nokkuð í bók Jóhanns Bárðarsonar, Brimgný, sem út kom árið 1943.

 

Árið 1907 varð fyrsta dauðsfallið í þessu húsi sorgarinnar, sem þá var. Síðan varð hvert dauðsfallið af öðru í fjölskyldunni. Síðla árs 1930 dó Helga, dóttir Péturs, síðust fjölmargra barna hans, og var hún fjórtánda líkið sem hann fylgdi til grafar frá húsi sínu.

              

Í Brimgný segir Jóhann Bárðarson m.a. svo um Pétur Oddsson:             

               

Síðustu árin var hann mjög einmana, eins og gefur að skilja. Var oft ömurlegt, einkum fyrir þá, sem áður vóru kunnugir á heimilinu, að koma í Péturshús, þegar svo stóð á sem oftast bar við, að Pétur var einn heima og ráfaði fram og aftur um hinar stóru en mannlausu stofur, þar sem allt minnti á liðna tímann, svo sem stórar myndir af hinum horfnu vinum. Á slíkum stundum mun Pétur ekki hafa getað stytt sér stund með lestri eða öðru, og því ekki átt annars kost en ráfa um gólf sér til afþreyingar, meðan tíminn leið. Aldrei heyrðist hann þó mæla æðruorð né kvarta. Samfara þessu sá hann efni sín rýrna ár frá ári. Var honum orðið vel ljóst, að hann var ekki maður til að rétta við fjárhagslega.

                       

Í æviminningum sínum, sem Ásgeir Jakobsson færði í letur og út komu árið 1978, segir Einar Guðfinnsson útgerðarmaður í Bolungarvík:               

                  

Á þessu ári [1935] bauðst mér að kaupa með kostakjörum íbúðarhús það, sem Pétur Oddsson hafði byggt 1904 og var stórt og mikið hús. Mér hafði reyndar boðist það, þegar ég keypti eignirnar 1933, en hafnaði því boði þá og það hafði verið leigt. Í þessu húsi hafði gerst hin mikla sorgarsaga Pétursfjölskyldunnar. Berklar höfðu höggvið stærst skarð í þá fjölskyldu og var óttast, að þeir kynnu að leynast í húsinu með einhverjum hætti. Af þeirri ástæðu hafði ég hafnað kaupunum 1933. Ég þorði ekki að flytja í húsið með börnin.

– – –                  

                   

Þessi voru þá örlög forvera míns í Víkinni, sem hafði átt mörg mannvænleg börn og verið einn ríkasti maður landsins um skeið. Það veit enginn sína ævina fyrr en öll er. Vissulega var það engin furða, þótt mér stæði stuggur af því að flytja með börn mín ung í þetta ógæfuhús. Nú var komið á fimmta ár frá því síðasti berklasjúklingurinn var borinn þaðan út látinn (Helga heitin í nóvember 1930) og þar sem ég hafði aldrei verið trúaður á að sýkillinn lifði í húsinu, þótt ég þyrði ekki að treysta á að svo væri ekki, kom ég þennan vetur, sem mér bauðst húsið á ný til kaups, að máli við Vilmund lækni á Ísafirði, en síðar landlækni, sem kunnugt er, og spurði hann, hvað honum sýndist um það, að ég flytti í Péturshúsið. Hann ráðlagði mér að bræla húsið með gufu og mála það síðan í hólf og gólf og þá myndi mér óhætt að flytja í það með fjölskylduna. Það yrði ekki um sýkingarhættu að ræða, ef ég gerði þetta. Ég fór svo að hans ráðum, en keypti þó ekki húsið það ár, heldur tók það á leigu af Landsbankanum þann 1. apríl 1935 og leigði það til 5 ára fyrir kr. 200 á mánuði. Ég setti þau skilyrði, að miðstöð væri látin í húsið, baðker og skolpleiðslur, gert yrði við kjallarann að innan og húsið málað, veggfóðrað og dúklögð öll gólf. Áður hafði það verið brælt með gufu.

 

Kjallarinn í Einarshúsi 03Þegar þetta hafði allt verið gert, fluttist ég með fjölskyldu mína í húsið þann 1. apríl 1935 og þar bjuggum við þar til 1966 eða í rúm 30 ár. Öll mín fjölskylda var hraust og heilsugóð í þessu húsi og þar leið okkur vel. Nafnaskipti urðu á húsinu þegar stundir liðu og það kallað Einarshús. Margir hafa spurt, hvort við höfum einskis orðið vör í húsinu, svo margir sem þar dóu fyrir aldur fram og svo mörg lík sem þar stóðu uppi.

 

Enginn af minni fjölskyldu varð nokkurs var, sem dularfullt getur kallast, en ég hef sagnir af því, að gestir hafi orðið varir við óskýranleg fyrirbæri. Það sagði gestkomandi útgerðarmaður, að hann hefði legið vakandi í rúmi sínu síðla kvölds, þegar inn í herbergið gekk ungur maður, án þess að hurðin opnaðist, og stóð um stund á miðju gólfi og horfði á manninn í rúminu, og sá þessi útgerðarmaður unga manninn jafnljóst og um lifandi mann væri að ræða. Þessi útgerðarmaður er þó ekki gæddur neinum dulrænum hæfileikum, það hann viti. Hann sagði mér heldur ekki söguna né fjölskyldu minni til að hrella hana ekki, heldur öðrum manni mörgum árum seinna.

– – –                  

                   

Kjallarinn í Einarshúsi 04Þegar stigar fóru að verða okkur hjónunum erfiðir, einkum konu minni, fluttum við úr þessu húsi, sem hafði reynst okkur mikið gæfuhús og lifað þar blómann úr ævi okkar. Péturshús og Einarshús á sér þannig mjög tvískipta söguna milli harma og hamingju. Það var til dæmis aldrei borið lík út úr Einarshúsi í þau 32 ár, sem við bjuggum þar, nema Hildur, tengdamóðir mín, sem dó öldruð, og Kristján Tímotheusson, sem hafði dáið syðra, en líkið flutt heim og jarðsett frá mínu húsi.

 

Vissulega átti ég daprar stundir í þessu húsi, svo sem þegar slys urðu á bátum mínum eða miklir erfiðleikar steðjuðu að í rekstrinum, en miklu fleiri eru minningarnar ánægjulegar.

– – –                  

                   

Kjallarinn í Einarshúsi 05Fyrsta baðkerið í Bolungarvík, sem vatn var leitt að, var í Einarshúsi. (Það var að vísu gamalt baðker úti í Sameinaða, en það var borið vatn í það.) Í baðkerinu í Einarshúsi fengu ýmsir utan heimilis að baða sig, þar á meðal læknirinn, Sigurmundur Sigurðsson. Það var nú svo um þann ágæta mann, Sigurmund, að þótt hann væri greindur, þá var hann misgreindur. Hann virtist til dæmis ekki vera sterkur í eðlisfræðinni, ef dæma má af aðförum hans í baðkerinu í Einarshúsi. Hann fleytifyllti ævinlega baðkerið, áður en hann fór niður í það, og þá náttúrlega sullaðist úr kerinu og flóði út um allt gólf.

 

Gólfið var trégólf og undir baðherberginu var klæðaskápur Elísabetar og dætranna. Þær báru sig illa undan þessu flóði frá lækninum, en frúin harðbannaði að þetta væri nefnt við lækninn, því hún vildi ekki styggja hann, henni var vel til hans, eins og flestum Bolvíkingum. Þetta gerðist eins í hvert skipti, sem hann fór í bað, að hann fleytifyllti kerið og fór svo upp í það, og hann áttaði sig aldrei á þessari staðreynd, að þá myndi flæða út úr kerinu.

– – –                  

                   

Það þurfti að dæla baðvatni í dúnk uppi á lofti í Einarshúsi. Vinnukonurnar höfðu þennan starfa, en komust sumar létt frá honum á stundum. Það komu nefnilega ungir menn aðvífandi og dældu fyrir þær og unnu sumir hug stúlknanna, þó að máski fleira hafi nú orðið til þess en beinlínis dælan. Það er svo sem ekki að fortaka það, en Einar Guðfinnsson telur ákveðið, að dælan hans hafi stofnað til að minnsta kosti þriggja farsælla hjónabanda og margra barna í þorpinu, og kannski fleiri en vitað er um. Stúlkurnar gátu varla fengið haldbetri staðfestingu á ást en þetta, að piltarnir komu hlaupandi til að dæla, því að dælan var þung og seinlegt að fylla dúnkinn. En þarna stóðu þeir sveittir og dældu og gátu rabbað við stúlkurnar sínar á meðan, - og uppskáru sumir ríkuleg laun um síðir. Vinnustúlkur í Einarshúsi vóru oft bestu kvenkostir plássins.    

– – –                   

                   

Mannmargt var oft í Einarshúsi, ekki síður en Péturshúsi, áður en dauðinn tók að herja þar. Börnin vóru þar átta og jafnan eitthvað af vandafólki mínu eða konunnar þar til húsa eða í mat og síðan vinnustúlkurnar, sem oft vóru tvær og veitti ekki af. Það vóru sjaldan færri en 20 manns við matborðið. Menn, sem komu á ferð sinni í plássið, áttu oftast eitthvert erindi við mig, og þó svo væri ekki, þá varð mitt heimili gististaður þeirra. Það var ekki í annað hús að venda. Kona mín var einstaklega röggsöm og dugleg húsmóðir og sýnt um að taka á móti gestum og virtist alltaf geta bjargað málunum, þótt gesti bæri óvænt að garði, stundum marga í einu.

 

Það var á tímum mæðiveikifjárskiptanna, að fyrir kom atvik, sem sýnir ljóslega, hversu fjölmennt var oft við matborðið í Einarshúsi. Þá komu bændur úr fjarlægum stöðum að sækja fé vestur og þá einnig til Bolungarvíkur. Eitt sinn var í plássinu í fjárkaupaferð bóndi að austan. Hann var öllum ókunnugur og vegalaus í þorpinu, en þurfti að fá að borða og hittir mann á förnum vegi og spyr hann, hvar hann muni geta fengið keyptan mat. Nú veit ég ekki, hvaða Bolvíkingur það hefur verið, sem hann hitti, nema hann bendir bóndanum á stórt hús miðsvæðis í þorpinu og segir honum, að hann skuli fara þangað, með svofelldum orðum: Þarna færðu að eta, manni minn.

 

Bóndinn lætur ekki segja sér þetta tvisvar, heldur gengur heim að húsinu, ber ekki að dyrum, því að það gera menn ekki á hótelum, heldur gengur rakleiðis inn, hittir þar konu mína og segist vera kominn til að borða. Konan var vön því að ég byði allskyns fólki í mat með mér og vísaði manninum til borðstofu. Þar var þegar allmargt manna, því að við vorum að setjast til borðs. Bóndinn heilsar og spyr, hvar hann eigi að sitja, og honum er vísað til sætis við borðið, en borðstofuborðið var mjög stórt og við það rúmuðust um tuttugu manns. Ég vissi lítil eða engin deili á þessum manni og vissi ekkert hvernig á því stóð, að hann var sestur þarna til borðs í húsi mínu.

           

Bóndanum er auðvitað borinn matur eins og öðrum og við tökum öll til matar okkar. En bóndinn, skrafhreifinn maður, vildi halda uppi einhverjum samræðum við borðið, og segir því, svona til að hefja samræðurnar: Hvað ertu búinn að reka þessa matsölu lengi, Einar?

 

Ég svaraði honum því, að hér væri engin matsala, það væri einungis heimafólk og vandamenn við borðið, nema hann.

 

Bónda setti fyrst hljóðan, en sagði síðan, að sér hefði verið vísað hingað af einhverjum þorpsbúa, og hlyti þetta að hafa verið hinn versti maður, að hlunnfara sig svona. Ég sagði, að það væri ekki, þetta væri algengt, að vegalausum mönnum væri vísað til okkar, því að engin greiðasala væri í plássinu og það væri ekki nema eðlilegt, að þorpsbúum fyndist sumum, að ég hlyti að vera þess best umkominn að gefa mönnum að borða, og væri honum maturinn velkominn. Mér gekk illa að friða hann, því að hann hafði miklar áhyggjur af því, hvað við kynnum að hafa haldið, einkum kona mín, þegar hann kom askvaðandi inn að eldhúsdyrum og heimtaði mat, og síðan við í stofunni, þegar hann spurði, hvar hann ætti að sitja. Hann þóttist þó skilja það, að í Einarshúsi væri mönnum ekki úthýst í öllu skaplegu. Það var heldur ekki venja í Litlabæ og voru þar þó minni efnin.

– – –                  

                   

Þetta voru sumsé brot úr Einars sögu Guðfinnssonar, sem Ásgeir Jakobsson skráði. Nú er líf og starf í Einarshúsi á nýjan leik - og loksins komin þar greiðasala ....

               

Myndirnar sem hér fylgja eru úr Kjallaranum hjá Rögnu Jóhönnu Magnúsdóttur, vertinum í Víkinni - sem reyndar bloggar líka hér á Moggabloggi.

 

Kosningabaráttan er lýjandi ...

Plakataupplímingarmaður

       

... víðar en á Íslandi. Pása hjá plakataupplímingarmanni í Nígeríu.

  Svipmynd frá St. Andrews 

P.s.: Bretarnir láta ekki dálitla rigningu aftra sér frá því að fara hinn daglega hring á golfvellinum ...

 

Hornsteinar og krosstré - í boði mbl.is

Eiginlega finnst mér hálfundarlegt að blogga hér í boði mbl.is og nota svo vettvanginn til að drulla yfir fyrirtækið og starfsfólk þess. Nánast eins og að vera í kvöldverðarboði og lýsa frati á matinn og gestgjafana. Hér er ég einkum að hugsa um síðustu færslu mína, en hún snýr að þeim sem annast fréttaskrifin á mbl.is.

 

Það liggur við að ég iðrist þessara ummæla vegna þess hve stórkarlaleg og lítilsvirðandi þau eru. Engu að síður læt ég þau standa. Mér þykja vinnubrögðin við fréttaskrifin á mbl.is iðulega fyrir neðan allar hellur. Mér skilst að ég sé ekki einn um það viðhorf. Að vísu er ég ekki vanur að spyrja aðra hvað mér finnst.

 

Ef ég sæi einhvern misþyrma hestinum mínum - reyndar á ég ekki hest - þá yrði ég reiður. En þó að ég eigi ekki hest, þá á ég hlutdeild í íslenskri tungu. Þannig er a.m.k. tilfinningin. Og þegar þeir stóru og öflugu misþyrma henni, þá sárnar mér.

 

Þeir stóru og öflugu eru fjölmiðlarnir. Þegar við þetta bætist að mér þykir vænt um tiltekna fjölmiðla, þá sárnar mér tvöfalt, ef þannig mætti að orði komast. Þegar krosstrén bregðast, eða þannig.

 

Ég geri alveg sérstakar kröfur til Ríkisútvarpsins og Morgunblaðsins. Mér þykir vænt um þessar stofnanir, þessa hornsteina íslenskrar menningar - já, ég leyfi mér að kalla Morgunblaðið bæði stofnun og hornstein íslenskrar menningar! - og mér sárnar alveg sérstaklega þegar þessir miðlar eða afleggjarar þeirra misstíga sig.

 

En, og þá vísa ég til þess sem fyrr var sagt:

 

Ef ummæli eru lítilsvirðandi en jafnframt ómakleg, þá hitta þau einungis þann fyrir sem hefur þau í frammi. Ef stóryrði mín eru ómakleg, þá eru þau einungis lítilsvirðandi fyrir mig sjálfan.

 

Jeg þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir!

 

Þegar bloggarar skúbba ...

Fyrir rúmum mánuði sagði Steingrímur Sævarr Ólafsson (Denni) frá því á Vísisblogginu, að Dorrit Moussaieff forsetafrú hefði slasast í skíðaferðalagi í Bandaríkjunum. Bloggið var birt kl. 14.52 en frétt um málið birtist ekki fyrr en kl. 16.27 á visir.is. Frétt af slysinu birtist kl. 15.29 á mbl.is. Visir.is sagði í frétt sinni að upplýsingar um málið hefðu fyrst komið fram á bloggi Steingríms.

 

Núna má lesa á mbl.is athyglisverða frétt um þjófnað á veisluföngum og fleiru og handtöku glæpagengis frá Austur-Evrópu fyrir nokkrum dögum. Vitnað er í frétt í Ríkisútvarpinu í dag.

 

Eins og fleiri hafa bent á, þá greindi einn af eðalbloggurunum hér á Moggabloggi ítarlega frá þessu í fyrradag (!) og vakti mikla athygli sem von var. Nema hjá blaðamönnum og fréttamönnum sem virðast ekki fylgjast með öðru en fréttatilkynningum frá stofnunum og birtingu fréttatilkynninga frá stofnunum hjá öðrum fréttaveitum.

             

(Innskot síðar: Nei, þetta síðasta var dálítið ósanngjarnt eða rúmlega það).

          

Ekki er vitnað í fyrstu heimildina að þessu sinni eins og í dæmi Denna.

                    

Eru bloggarar smátt og smátt að taka við vaktinni af hinum hefðbundnu fréttaveitum?

             

Væri e.t.v. rétt að fréttaveiturnar hefðu mannskap á bloggvakt?


mbl.is Erlent glæpagengi stal fiskveislu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband