Nú verða sagðar fréttir

Jón Kjartansson í JónsbúðJón Kjartansson kaupmaður í Jónsbúð á Reykhólum - og núna líka í Nesi (Króksfjarðarnesi) - segist vera mjög sáttur við veltuna hjá sér það sem af er sumri. Heimafólkið verslar líklega með svipuðum hætti og venjulega en meira hefur verið af ferðafólki en á sama tíma í fyrra. Einkum eru það útlendingar á húsbílum sem læðast jafnt og þétt hér út á Reykjanes við Breiðafjörð og eiga næturstað á planinu við sundlaugina.

 

Dagurinn í gær - föstudagurinn - var sá heitasti hér fram að þessu. Lofthitinn fór í tuttugu stig og breyskjan var gríðarleg í sólskininu þannig að svalt var að koma inn í hús.

 

Núna í laugardagsmorgunsárið kom svolítil rigningarskúr náttúrunni til hressingar. Í fyrrakvöld gerði gríðarlega rigningu sem var vel þegin eftir þurrasólskin að mestu vikum saman.

 

Myndina af Jóni kaupmanni tók ég í gær þegar glaðast skein sólin. Búðin hans er lítil að utan en einhvern veginn stærri þegar inn er komið. Ferðafólk spurði mig um daginn hvað þarna fengist. Allur andskotinn, svaraði ég.

 

Þetta sá ég á netinu áðan:

 

Ávarpið flutti ég í hófi ... (Björn Bjarnason)

 

Hvíta duftið sem fannst í bensíntönkum Ferraribílanna skömmu fyrir Mónakókappaksturinn reyndist vera þvottaduft. - - - Forsvarsmenn McLaren hafa þvegið hendur sínar af málinu ... (mbl.is)

 

Hver skrattinn hefur hlaupið í sjávarútvegsráðherra?

Einkennileg og fordæmislaus er sú ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra, að fara að ráðum vísindamanna varðandi þorskveiðikvótann. Fram að þessu hafa ráðherrar ævinlega hunsað álit vísindamanna og látið veiða mun meira en skynsamlegt hefur talist. Síðasta aldarfjórðunginn hafa Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson og Árni M. Mathiesen mann fram af manni stjórnað hruni þorskstofnsins við Ísland.         

Núna er loksins kominn sjávarútvegsráðherra sem telur sig ekki yfir það hafinn að fara að ráðum þeirra sem best mega vita.

Eins og ég hef alltaf sagt: Einar K. Guðfinnsson er fjandakornið enginn pólitíkus. Til þess skortir hann sárlega helstu ókostina sem prýða hvern góðan stjórnmálamann. 


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Schumacher og ég

Það rifjast upp núna á setningardegi Landsmóts UMFÍ, að á síðasta móti sem haldið var á Sauðárkróki fyrir þremur árum fékk ég einu gullverðlaunin sem Héraðssambandi Vestfirðinga hlotnuðust í það skiptið. Núna er ég hins vegar eins og Michael Schumacher: Hættur að keppa. Líklega eigum við fátt annað sameiginlegt. 

Réttlætiskennd, eða hvað?

Alltaf er gaman að fylgjast með dýrategundinni homo sapiens - hinni vitibornu mannskepnu. Spjallvefirnir og bloggið eru kærkomnir viðbótargluggar á dýragarðinum. Ekki er minnst gaman að horfa inn í Barnaland, heim barnsins á netinu, vinsælan undirvef mbl.is, og fylgjast með spjallinu þar. Núna síðast hefur verið bæði fróðlegt og skemmtilegt að sjá skoðanir fólks á því hvað eigi að gera við nafngreindan pilt, sem sagður er hafa pínt og drepið hund norður á Akureyri.

 

Á spjallvef Barnalands hafa fjölmargir komið fram - mér skilst að þarna séu foreldarnir en ekki börnin að viðra skoðanir sínar - sem vilja að farið verði með piltinn eins og hundinn, þ.e. að hann verði pyntaður til dauða. Ekki virðist þá skipta máli hvort hann er sekur um verknaðinn enda liggur það ekki fyrir, að mér skilst - málið er bara að hefna sín á einhverjum, drepa einhvern og helst að pína hann sem allra mest áður.

 

Sumir kalla þetta réttlætiskennd.

 

Viðbrögð af þessu tagi - blindur blóðþorsti - eru vel þekkt hjá homo sapiens og hafa iðulega leitt til aftöku án dóms og laga og gera það enn í dag. Jafnframt eru eftirfarandi meginreglur vel þekktar: Því heimskara sem fólk er, þeim mun fljótara er það að dæma. Því minna sem fólk þekkir til málavaxta, þeim mun harðari eru dómarnir.

 

Réttlætiskenndin.

 

2007-06-28_182432Í gær voru hlið við hlið á vefnum visir.is fréttirnar tvær hér á myndinni.  Önnur varðar málið sem hér er til umræðu. Í hinni er greint frá verklegum æfingum fyrir börn í því að kvelja dýr sér til skemmtunar. Samkvæmt fréttinni virðist þetta hafa verið í einhverjum tengslum við leikjanámskeið.

 

Fiskveiðar og dýraveiðar og eldi dýra til slátrunar mega teljast nauðsynlegir og eðlilegir þættir lífsbaráttunnar, a.m.k. samkvæmt því sem nokkuð almennt er viðtekið og viðurkennt þessi andartökin í eilífðinni, hvað svo sem verður á morgun. Stangveiði sér til skemmtunar er ekki þar á meðal. Þar er ekki verið að veiða sér til lífsviðurværis. Sportið í laxveiði felst m.a. í því að geta kvalið fiskinn sem lengst. Tilgangurinn er ekki að koma heim með sem allra mesta lífsbjörg í pottinn. Hámark skepnuskaparins á þeim vettvangi felst í því að sleppa fiskinum lifandi eftir að hafa kvalið hann sem lengst sér til skemmtunar svo að hægt sé að kvelja hann aftur á sama hátt. Og helst aftur og aftur.

 

Hver er eðlismunurinn á því að pína hunda eða fiska? Nú, eða jafnvel fólk? Hver er eðlismunurinn á viðhorfinu til slíkra skemmtana - má e.t.v. kalla þetta lífsnautnir? - eftir því hvaða dýrategundir eiga í hlut? Er líklegt að börn sem kennt er að rétt sé að kvelja sum dýr sér til gamans öðlist með því virðingu fyrir lífi og tilfinningum annarra dýra?

 
mbl.is Morðhótunum rignir yfir ungan mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkjaforseti flytur hátíðarávarp á afmælisdegi Reykhólahrepps

Jafnan þegar einhver verður hundrað ára, að ekki sé nú talað um hundrað og fimm ára, þá kemur mynd og klisjufrétt í fjölmiðlum þar sem segir að viðkomandi hafi fagnað afmælinu. Fagnað hundrað og fimm ára afmæli sínu!

 

Mikið á ég erfitt með að trúa þessu. Sjálfur varð ég sextugur í vor og fagnaði ekki þeim áfanga. Þegar ég var krakki var afmælið ánægjulegur viðburður á þroskabrautinni. Þegar komið er yfir hæðina er afmælið ekki síst áminning þess, að sífellt styttra er eftir.

 

Þegar barnsárin eru að baki er afmælið stund til að staldra við á göngunni. Við lítum yfir farinn veg en jafnframt eitthvað fram á veginn. Því eldri sem við erum, þeim mun meira er að skoða að baki og þeim mun styttri er spottinn framundan.

 

Sennilegt þykir mér, að fólk sem fagnar hundrað og fimm ára afmæli sínu sé gengið í barndóm á nýjan leik. Búið að tapa út seinustu hundrað árunum. Til að hnykkja á þessu fá allir sem verða 105 ára gamlir bréf varðandi umferðarfræðslu og aðsteðjandi grunnskólagöngu.

 

En afmælin eru fleiri en í lífi okkar mannfólksins. Viðburðir eiga afmæli, mannvirki eiga afmæli, hundar eiga afmæli og jafnvel kýr. Þjóðhátíðin er afmælisfagnaður.

 

Stundum er því líka fagnað að einhver hafi dáið. Mig minnir að það hafi verið blað allra landsmanna sem greindi frá því á sínum tíma, að því væri fagnað um allan heim að 200 ár voru liðin frá andláti Mozarts. 

 

Núna var ég að ganga frá atburðadagatali sumarsins í Reykhólahreppi. Hér eru ýmis afmælin ef grannt er skoðað. Svo að ég nefni tvo jafnaldra mína hér, þá er Hótel Bjarkalundur sextíu ára núna í sumar, elsta sveitahótel hérlendis, og Grettislaug á Reykhólum er líka sextug. Íbúðarhúsið á Höllustöðum í Reykhólasveit fagnar á þessu ári hundrað ára afmæli sínu ...

 

Reykhólahreppur á afmæli 4. júlí eins og Bandaríkin. Hann verður tvítugur eftir þrjár vikur. Eiginlega er hér um eins konar bandaríki að ræða, því að fyrir tuttugu árum voru fimm sveitarfélög við innanverðan Breiðafjörð og úti á Breiðafirði sameinuð undir nafni hins nýja Reykhólahrepps (Geiradalshreppur, Reykhólahreppur, Gufudalshreppur, Múlahreppur og Flateyjarhreppur). Mörgum er ókunnugt um að Breiðafjarðareyjar eru að mestu leyti í Reykhólahreppi. Flatey á Breiðafirði er okkar Hawaii. Mér skilst að Bush forseti muni ávarpa þjóð sína á afmælisdegi Reykhólahrepps.

 

Leyfi mér að minna á, að Reykhólar eru ekki á Barðaströnd, þó svo að fjölmiðlar ali á því hvenær sem héðan eru fluttar einhverjar fréttir. Barðaströndin er ekki einu sinni í Reykhólahreppi, þó að hann sé afar víðlendur. Héðan frá Reykhólum er um 140 km akstur þangað til komið er út á Barðaströnd. Annars er Barðaströndin yfirleitt fremur stór í fréttum fjölmiðla. Þannig var sagt frá því fyrir nokkrum dögum, að týnda kajakfólkið hefði fundist á Rauðasandi á Barðaströnd. Það er líka nýmæli í landafræðinni.

 

Er ekki annars Reykjavík í Þingvallasveitinni og Grindavík í Vestmannaeyjum?

 

Þegar stórt er spurt, eins og kellíngin sagði ...

 

Meira um ófarirnar í boltanum haustið 1967 - engin Þórðargleði

Þegar ég les meira í Morgunblaðinu um þá útreið sem landsliðið og KR fengu haustið 1967 (samtals 28-3 í þremur leikjum, sjá næstu færslu á undan), þá er tvennt sem varla dylst og mér finnst nauðsynlegt að taka fram, í ljósi þess sem fram kemur í téðri færslu. Annars vegar: Þessi úrslit eru tekin mjög alvarlega. Hins vegar: Hvergi í umfjöllun Morgunblaðsins sé ég örla á kvikindishætti eða Þórðargleði í garð þeirra sem í þessu lentu.

 

Mbl. 24. ág. 1967Ummæli íþróttafréttamanns Morgunblaðsins, sem ég vitnaði til, hljóma að vísu nánast eins og háð. Ég veit þó mætavel að hér var ekkert slíkt á ferðinni. Fréttamaðurinn var í sjokki eins og allir aðrir - og þar að auki áttu vinir hans hlut að máli. Með lofsamlegum orðum var hann einfaldlega að reyna að milda áfallið, reyna að draga eitthvað jákvætt fram í dagsljósið, þó að e.t.v. hefði mátt fara skárri meðalveg í þeim efnum - svona eftir á að hyggja.

 

Mér er 14-2 leikurinn afar minnisstæður. Þetta kvöld var ég á fréttavakt á Morgunblaðinu og við hlustuðum á lýsingu Sigurðar Sigurðssonar í útvarpinu. Sú lýsing er ógleymanleg - ekki aðeins vegna þess að einungis liðu tæpar sex mínútur milli marka að jafnaði, heldur líka af annarri ástæðu, sem e.t.v. er rétt að bíða önnur fjörutíu ár með að fjalla nánar um.

 

Þeir sem vilja geta lesið umfjallanir Moggans í Gagnasafninu (Morgunblaðið hjá Landsbókasafni). Þar má einkum benda á blaðið daginn eftir hvern leik, þ.e. fimmtudaginn 24. ágúst, fimmtudaginn 7. september og fimmtudaginn 14. september. Einnig föstudaginn 25. september og þó sérstaklega þriðjudaginn 29. september.

 

Þess má geta, að mörkin tvö í landsleiknum skoruðu Helgi Númason og Hermann Gunnarsson. Eina mark KR gegn Aberdeen skoraði Eyleifur Hafsteinsson.

 

14-2 o.s.frv. - ætli mánudagar séu betri? Og hvað með Ellert?

Það virðist ekki henta íslenskum liðum að keppa við erlend lið á miðvikudögum. Haustið 1967 töpuðu landsliðið og KR þremur miðvikudagsleikjum á fjórum vikum samtals 28-3. Einhverjir muna kannski eftir landsleiknum gegn Dönum á Parken miðvikudaginn 23. ágúst sem fór 14-2. Fyrstu tvo miðvikudagana í september spiluðu KR og Aberdeen í Evrópukeppni meistaraliða. Aberdeen vann samtals 14-1.

 

Í gær var miðvikudagsleikur gegn Svíum.

 

Nokkrir af bestu leikmönnum þjóðarinnar spiluðu í öllum leikjunum þremur haustið 1967 sem fyrst voru nefndir, bæði með landsliðinu og KR. Og stóðu sig yfirleitt frábærlega, eftir því sem fram kemur á þeim tíma, ekki síst markvörðurinn, sem þó fékk á sig liðlega níu mörk í leik að meðaltali. Hann hlaut lof hjá íþróttafréttamanni Morgunblaðisins fyrir glæsilega markvörslu í landsleiknum gegn Dönum (14-2) – „og verður ekki sakaður um hinn mikla ósigur“, eins og komist er að orði í umfjöllun um leikinn. Landsliðsþjálfarinn sagði eftir leikinn: „Allir leikmennirnir áttu ágæta kafla en hraðann skorti mjög.“ Morgunblaðið sagði að liðið hefði átt ágætan leik á köflum og benti réttilega á, að skotanýtingin hefði verið mun lakari hjá danska liðinu en því íslenska (!).

 

Á þessum árum var ekki búið að finna upp klisjuna um einbeitingarleysi sem núna er alltaf notuð. Augnabliks einbeitingarleysi, eins og það heitir. Enda hefðu þá verið nokkuð mörg augnablikin í íslenskri knattspyrnu haustið 1967. Þjálfari KR-inga sagði og var ekki að afsaka neitt: „Það var ekkert við þessu að gera. Aberdeen-liðið er einfaldlega mörgum klössum betra en við erum.“ Morgunblaðið leit á björtu hliðarnar eins og fyrri daginn og sagði: „Hjá KR bar Ellert Schram hreinlega af. Hann stöðvaði sóknarlotur Skotanna óteljandi sinnum, náði ótal skallaboltum og ríkti sem konungur í vítateig KR. Hann gerði og tilraunir til sóknar og stjórnaði liðinu sem sönnum skipstjóra sæmir.“

 

Ég sé að Íslendingum gengur vel á Smáþjóðaleikunum þessa dagana. Af hverju er fótboltalandsliðið ekki þar? Og: Skyldu íslenskir knattspyrnumenn vera betur fyrirkallaðir á mánudögum?

 

Eitt enn: Núna er Ellert Schram kominn á þing á ný eftir áratuga fjarveru. Skyldi hann ekki styrkja vörnina bæði hjá KR og landsliðinu, ef út í það færi? Og jafnvel gera tilraunir til sóknar líka?


mbl.is Íslendingar sáu aldrei til sólar í fimm marka tapleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrrverandi seðlabankastjóri lýsir starfinu

„Það eina sem ég get fundið að starfsárum mínum í Seðlabankanum var að ég hef aldrei haft það jafnnáðugt í starfi á ævinni. Suma dagana nánast leiddist mér. Ég skildi betur hvað stundum hafði verið erfitt að ná í Tómas Árnason þegar vel viðraði fyrir golf ...“, segir Steingrímur Hermannsson fyrrv. seðlabankastjóri (1994-98) í æviminningum sínum.

Ennfremur segir hann:

„Rólegheitin í Seðlabankanum höfðu þó sínar jákvæðu hliðar. Ég hafði betri tíma en nokkru sinni fyrr til að sinna áhugamálum mínum og fjölskyldu. Ég fór að spila golf og fékk tíma til að sinna skógræktinni í Borgarfirði ...“ 


mbl.is Samþykkt að hækka laun seðlabankastjóra um 200.000 kr. á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundakjötsát

Hundakjöt 01Mér skilst að hundakjöt sé prýðismatur. Það er sjálfsagður og vinsæll matur í Austur-Asíu, rétt eins og t.d. kattakjöt. Viðbrögð Vesturlandabúa gagnvart hundakjötsáti virðast iðulega svipuð og viðhorf margra útlendinga til íslensku sviðanna: Hneykslun og ógeð.

 

Núna er greint frá því í fréttum, að breskur listamaður hafi matreitt hund til þess að mótmæla refaveiðum konungsfjölskyldunnar. Þetta átti víst að hneyksla. „Íslandsvinurinn“ Yoko Ono er sögð hafa fengið sér bita.

 

Hundakjöt 03Í hallærum fyrri alda dóu Íslendingar úr hungri fremur en að éta annað en þeir voru vanir. Ljótir fiskar voru ekki étnir. Einhvers staðar fjallar Kiljan um þau undarlegheit Íslendinga að leggja sér einungis andlitsfríða fiska til munns. Heldur át fólk skóna sína en það æti skötusel eða hrossakjöt. Sveltandi börnin fengu reimarnar úr skónum að sjúga meðan berfættir foreldrarnir grófu ellidauð hrossin.

                       

Sinn er siður í landi hverju.

                         

Þýskt orðtak hljóðar svo: Það sem bóndinn þekkir ekki, það étur hann ekki. Í þessu felst, að sá sem alla tíð hefur verið heima, alltaf bundinn við sína torfu - er sumsé heimskur, í upphaflegri og bókstaflegri merkingu þess orðs - tortryggir allt sem honum er framandi. Þessu skylt er að hlæja að öllu sem er framandi. Þess vegna voru t.d. blökkumenn óttalega hlægilegir í augum Íslendinga, og rósóttir tréskór, og fólk sem þvoði sér um hendurnar jafnvel í hverri viku.

 

Hundakjöt 02Ég hef ekki smakkað hundakjöt sem sérstakan rétt en vissulega hef ég borðað ýmis gúllös og kássur á austurlenskum veitingastöðum. Illa er ég svikinn ef þar hafa ekki leynst innan um einhverjar tægjur úr hundum og köttum.

 

Í síðustu viku birtist á þýska fréttavefnum spiegel.de samantekt í máli og myndum um hundakjötsmenninguna í Víetnam. Tilgangurinn er ekki að vekja hneykslun eða ógeð heldur að greina frá hlutum sem eru heilum þjóðum eðlilegir en öðrum framandi. Hér er tenging á þessa frásögn, en þar er jafnframt hægt að skoða myndaseríu frá götuveitingastað í Hanoi. Ekki síst eru heilsteiktir hausar girnilegir (minna svolítið á sviðin okkar), að ekki sé nú minnst á hundapylsurnar (meðfylgjandi myndir eru úr þeirri seríu).

 

Hvenær ætli spiegel.de segi í máli og myndum frá sviðahausunum okkar og kæsta hákarlinum eða hráefninu í þjóðarrétti Íslendinga, SS-pylsunum? Þá held ég að einhverjum útlendingnum geti orðið bumbult ...

 
mbl.is Át hund í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búðaraunir Víkverja og fyrirspurn um pípur

Pistill Víkverja í Morgunblaðinu í dag er eins og út úr mínu hjarta skrifaður. Smelli honum inn hér fyrir neðan. Leyfi mér áður að rifja upp símhringingu í verslun fyrir nokkrum misserum, þegar ég var að hugsa um að hvíla mig á sígarettunum og fara í staðinn að reykja pípu eins og í gamla daga. Ég er þokkalega minnugur og man samtalið nánast eins og það var. Enda var ég talsvert hugsi að því loknu.

 

Ég hringdi og spurði hvort þarna fengjust pípur. Barnið sem svaraði þagði litla stund og spurði svo: Meinarðu hasspípur? Nei, ég var ekki að meina hasspípur. Veit ekki, kannski þú ættir að tala við pípara, sagði barnið þá. Ég meina reykjarpípur, sagði ég. Reykja-pípur? sagði barnið, ég skal athuga. En spurði svo: Hvað er reykja-pípur? Til að reykja tóbak, sagði ég. Jaaaáááá! sagði barnið með upplifunarraddblæ þess sem hefur allt í einu öðlast skilning á lífsgátunni. Og kallaði svo í eitthvert annað barn í búðinni: Erum við með reykja-pípur? Síðan kom svarið: Nei, en þær fást ábyggilega í Ríkinu hjá Snorra.

 

Áður en kemur að pistli Víkverja langar mig að nefna afgreiðslumann sem var í Húsasmiðjunni á Ísafirði a.m.k. til skamms tíma eða síðustu árin sem ég var þar á svæðinu. Vonandi er hann þar enn. Það er Sigurður Þorláksson, sem réðst þar til starfa kominn á sjötugsaldur að loknu ævistarfi sem iðnaðarmaður. Fyrir nú utan einstaka ljúfmennsku og þolinmæði og hjálpsemi, þá vissi Siggi Láka hreinlega allt sem viðkom öllu sem þar fékkst og gat leiðbeint um alla hluti.

 

Víkverji dagsins segir:

 

Það er Víkverja mesta raun að fara í búðir. Ástæðan er sú að ef hann þarf aðstoð af einhverju tagi, þá er enga þjónustu að fá. Tómeygir unglingar við störf alls staðar, sums staðar allt að því ómálga börn, og þótt krakkaræflarnir hafi vilja til verksins hafa þeir hvorki þroska né það sem heitir þjónustulund til að valda því.

 

Verst eru bakaríin. Þar þýðir hvorki að biðja um sigtibrauð né normalbrauð – það þarf ráðstefnu þriggja samstarfsmanna til að finna út úr því hvaða brauð það gæti nú verið. Að biðja um kúmenbrauð, ástarpunga eða napóleonskökur er jafnflókið.

 

Besta aðferðin í bakaríinu er að nota vísifingurinn, benda og segja „svona“ og „svona“, og láta örlögin svo ráða hvað upp úr pokanum kemur. Víkverji upplifir sig jafnómálga í bakaríum á Íslandi og í Frakklandi.

 

Þegar í matvöruverslanir kemur er ástandið litlu skárra. „Hvar finn ég súkkat?“ spyr Víkverji næsta starfsmann, og í óspurðum fréttum er honum sagt í hvaða rekka súkkulaðið er. „Nei, súkkatið, þetta sem maður notar í ensku jólakökurnar!“

 

Og upphefst nú sami spurningaleikur búðarbarnanna og í bakaríinu: „Er til eitthvað sem heitir súkkat?“ „Ég veit það ekki, spurðu Selmu.“ Og Selma segir: „Ef þú sérð það ekki, þá er það örugglega ekki til.“ Víkverji vissi satt að segja ekki að aum sjón hans væri mælikvarði á það hvað væri til og hvað ekki. Á endanum kemst Víkverji að því að súkkatið er ekki lengur vistað með bökunarvörunum, heldur hjá þurrkuðu ávöxtunum.

 

Verslunarmennska er hætt að vera fag, og það ætti að vera forsvarsmönnum verslunarrekstrar áhyggjuefni. Metnaður og þjónustulund í faginu virðast á nokkrum árum hafa þurrkast út. Á sama tíma situr eldra fólk, með alla sína lífsreynslu og þekkingu, heima, margt hvert viljugt til að vinna eins og aldur leyfir, en getur ekki vegna einhvers fáránleika í eftirlaunakerfinu.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband